Máttur sjálfsumhyggju!

„Þú átt skilið að gefa sjálfum þér alla þá ást og umhyggju sem þú gefur öðrum“

-Buddha

Sjálfsumhyggja felur í sér að þykja vænt um sjálfa/n sig.

Rannsóknir benda til þess að með því að sýna sér umhyggju minnki kvíði og streita, bjartsýni eykst, bæði líkamleg og andleg heilsa er betri og fólk á auðveldara með að ná sér eftir áföll eða erfiðleika.

 Því miður er það svo að við getum verið okkar helstu gagnrýnendur, jafnvel án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Við höfum tilhneigingu til þess að grípa í sjálfsásakanir, niðurrif og aðrar neikvæðar hugsanir í eigin garð. Flestir eru ekki meðvitaðir um áhrif neikvæðra hugsana á líf sitt.

Stundum hafa neikvæðar hugsanirnar í eigin garð jafnvel verið að þróast og styrkjast innra með okkur allt að því frá því í barnæsku.

Það getur reynst erfitt að breyta þessu hugsunarmynstri, en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að valið er okkar. Við getum valið að lifa lífinu með jákvæðar og fallegar hugsanir um okkur sjálf, eða neikvæðar og meiðandi hugsanir sem gera engum greiða. Valið ætti að vera einfalt ekki satt?

Góð leið til að breyta hugsunum okkar er að vera vakandi fyrir neikvæðum hugsunum, skoða þær, vega og meta á gagnrýnin hátt. Það getur verið gott að  skrifa hugsanirnar niður til þess að fá skýra mynd af þeim og að átta sig betur á því hversu fjarstæðar þær eru frá raunveruleikanum.

Þegar að búið að skilgreina þessar neikvæðu hugsanir þarf að skipta þeim út fyrir jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir.

Skrifaðu niður andstæðuna við neikvæðu hugsunina. Til dæmis ef neikvæða hugsunin var: Ég er ömurlegur bílstjóri þá skrifar þú: Ég er frábær bílstjóri. Ef þú átt erfitt með að trúa jákvæðu hugsuninni þá getur verið gagnlegt að skoða neikvæðu hugsunina og sjá hvað hún er fjarstæðukennd.  

Það er til dæmis enginn sem er búinn að taka bílpróf alveg 100% ömurlegur bílstjóri. Sá sem nær bílprófi kann að keyra og kom sér í gegnum erfitt og krefjandi próf, hann keyrir um og oftast án þess að lenda í meiriháttar vandræðum. En vegna þess að þú að ert búinn að segja þér það svo oft að þú kunnir varla að keyra þá ertu farinn að trúa því. Þetta er lögmálið með hugsanir okkar, því oftar sem við segjum okkur eitthvað því meira  trúum við því. Þetta gildir bæði með neikvæðar og jákvæðar hugsanir.

Það gæti hljómað eins og klisja en það er mjög gott ráð að skrifa jákvæðu meiningarnar á post it miða og dreifa þeim um allt. Láttu þessar nýju jákvæðu meiningarnar verða að daglegu möntrunni þinni og hentu þessum gömlu neikvæðu hugsunum og hugmyndum sem þú hefur um þig í ruslið, því þar eiga þær heima!

Jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir í eigin garð hafa svo margt gott í för með sér.

Byrjaðu því strax í dag að skoða hugsanir þínar og gerðu það að markmiði að beina þeim í uppbyggilegan og jákvæðan farveg og áður en þú veist af mun líf þitt verða léttara og þú verður ánægðari í eigin skinni.

Lovisa Maria Emilsdottir