Æfðu þig í að finna fyrir gleði, þakklæti og hamingju!

Tími: 1x á dag í 5-10 mínútur í senn í a.m.k eina viku.

Til hvers?

Það er afar auðvelt að gleyma litlum eða stórum atburðum sem veita okkur ánægju í amstri dagsins. Margir eru fljótir að festast í hugsunum um það sem gengur illa og taka ekki eftir þeim atburðum sem veita okkur gleði, ánægju og almenna hamingju. Þegar við erum stressuð, áhyggjufull eða kvíðin er ennþá líklegra að þessir litlu eða stóru atburðir sem veita hamingju fari framhjá okkur eða við gleymum þeim fljótt og förum aftur í að hafa áhyggjur.

Hvernig?

Á hverjum degi í að minnsta kosti eina viku skrifaðu hjá þér þrjá atburði sem voru ánægjulegir yfir daginn. Gott er að gera þetta á kvöldin áður en farið er að sofa og sniðugt er að hafa litla bók á náttborðinu og penna. En samkvæmt rannsóknum um hamingju er mikilvægt að skrifa atburðina niður en ekki láta duga að hugsa um þá. Atburðirnir geta verið litlir eins og til dæmis: Vinnufélagi minn færði mér kaffi í dag. Þeir geta líka verið stórir, til dæmis: Ég fékk draumastarfið í dag. Allt eftir því hvað gerðist hjá þér yfir daginn.

Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga á meðan æfingin er framkvæmd:

1. Skrifaðu lýsandi titil. Dæmi: Vinnufélagi minn hrósaði mér í dag.

2. Reyndu að lýsa atburðinum eins nákvæmlega og þú getur. Ef að atburðurinn átti sér stað í samskiptum við annan einstakling, er gott að skrifa samskiptin gróflega niður.

3. Taktu fram hvaða tilfinningar komu fram hjá þér þegar að atburðurinn átti sér stað og hvaða tilfinningar koma fram hjá þér þegar þú rifjar hann upp.

4. Skrifaðu í þínum persónulega stíl. Ekki hafa áhyggjur af stafsetningu og málfari (æfingin er bara fyrir þig).

5. Ef þú tekur eftir því að hugur þinn leitar í neikvæðar hugsanir á meðan á æfingunni stendur, reyndu að beina hugann aftur að jákvæða atburðinum og þeim tilfinningum sem honum fylgja. Að temja sér að beina athyglinni af því neikvæða og yfir á það jákvæða getur verið krefjandi til að byrja með en verður auðveldara eftir því sem þú æfir þig meira!

Gangi þér vel og góða skemmtun!

Lovísa María Emilsdóttir

Félagsráðgjafi

Lovisa Maria Emilsdottir