Að horfast í augu við tilfinningar okkar

Að vilja losna undan óþægilegum tilfinningum, eins og sorg, vonbrigðum, höfnun, depurð og kvíða, er eitthvað sem við könnumst eflaust öll við. Það er manneskjunni eðlislægt að vilja frekar finna fyrir þægilegum tilfinningum eins og hamingju, gleði, ró og sjálfstrausti og við leytum þangað ósjálfrátt ef okkur líður illa. En það er samt sem áður einmitt það sem getur orðið að vandamáli, það er ef það gerir það að verki að við förum að forðast tilfinningar okkar, deyfa þær með ýmsum hætti, gera lítið úr þeim eða að efast um þær í stað þess að horfast í augu við hvernig okkur líður.

Til að vinna úr óþægilegum tilfinningum er mikilvægt að veita þeim athygli og horfast í augu við þær og muna að það er allt í lagi að finna fyrir þeim. Þegar við finnum fyrir þessum tilfinningum er mikilvægt að sýna sjálfum sér mildi því við getum verið gjörn á að vera hörð við okkur sjálf og í rauninni mun harðari en við myndum nokkurn tímann vera við aðra manneskju. Með því að staldra við og leyfa sér að finna fyrir tilfinningunum okkar þá opinberast oft ýmsir hlutir fyrir manni til dæmis hvaðan þær koma og hvað er á bakvið þær. Við fáum rými til að vinna úr tilfinningunum og í raun hleypa þeim út úr kerfinu okkar.

Það eru ýmsar leiðir til þess fallnar til að horfast í augu við vanlíðan og mikilvægt er að muna að okkur þarf ekki að líða illa og það eru til leiðir út úr sársaukanum. Vanlíðan er ekki eitthvað sem þarf að vera hluti af lífi okkar heldur er gott að líta á það sem tímabundið ástand. Það getur verið gott að leyta sér hjálpar hjá fagaðila og fá aðstoð við að vinna úr óþægilegum tilfinningum og reynslu. Þá er mikilvægt að hafa í huga að það að leyta sér hjálpar er merki um styrk og hugrekki.

Guðrún Katrín Jóhannesdóttir

Ráðgjafi hjá Þitt virði